Tilkynningar

HorseDay Höllin Ingólfshvoli

Ásta Björk Friðjónsdóttir
10
Janúar
2023
|
3
mín lestur
„HorseDay er að koma öflugt inn í hestaheiminn, þarna er á ferðinni metnaðarfullt og spennandi verkefni sem er að leiða af sér góða hluti fyrir hestamennskuna.

Ingólfshvoll hestamiðstöð sem á og rekur reiðhöllina á Ingólfshvoli í Ölfusi og forsvarsmenn HorseDay undirrituðu nýverið samning sín á milli. Samningurinn felur meðal annars í sér að HorseDay verður helsti styrktaraðili starfsemi reiðhallarinnar til næstu þriggja ára, ásamt því að reiðhöllin á Ingólfshvoli verður hér eftir nefnd „HorseDay höllin á Ingólfshvoli“.

Þeir Teitur Árnason talsmaður og einn eigenda Ingólfshvoll hestamiðstöð og Oddur Ólafsson framkvæmdastjóri HorseDay undirrituðu samninginn í nýju HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli. 

Teitur Árnason og Oddur Ólafsson
„Á Ingólfshvoli er rekin metnaðarfull starfsemi af kraftmiklu hestafólki sem kemur víðsvegar af landinu. Þegar hafa verið gerðir samningar um margháttaða starfsemi í nýju Horseday- höllinni fyrir árið 2023, en þar má einna helst nefna mótaröð Meistaradeildar í hestaíþróttum sem mun fara að mestu leyti fram í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli. Við erum spennt fyrir samstarfinu og hlökkum til að bjóða fólki velkomið í HorseDay-höllina á Ingólfshvoli á nýju ári“. – segir Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri HorseDay.

HorseDay kom á markað í sumar með samnefnt smáforrit, sem er innlegg í stafræna vegferð hestahaldsins og á að stuðla að framförum í hestamennsku, með bættri yfirsýn og skilvirkari samskiptum hestafólks sín á milli. Lausnir á borð við HorseDay hafa rutt sér til rúms í flestum íþróttagreinum víðs vegar í heimi hestaíþróttarinnar og nú er hestamennskan á fyrstu skrefum í notkun kerfisins hér á landi.

„HorseDay er að koma öflugt inn í hestaheiminn, þarna er á ferðinni metnaðarfullt og spennandi verkefni sem á örugglega eftir að leiða af sér góða hluti fyrir iðkendur hestamennskunnar. Það er því sérstaklega áhugavert fyrir okkur á Ingólfshvoli að vinna með HorseDay að markaðs- og kynningarmálum“. – segir Teitur Árnason, meðeigandi Ingólfshvols hestamiðstöðvar.