Tilkynningar

Samstarfssamningur milli HorseDay ehf og LH

Ásta Björk Friðjónsdóttir
23
Maí
2023
|
3
mín lestur
LH og HorseDay hafa gert með sér samning um að þróa virknina „Mót“ innan smáforritsins HorseDay og er því ætlað að koma í stað LH Kappa, með það það fyrir augum að endurbæta verulega útlit og tæknilega virkni. Forritið mun gera notendum kleift að vakta mót og/eða hesta þannig að viðkomandi munu berast tilkynningar þegar viðburður, þátttaka í móti eða annað swm fylgt er er skráð.
Ólafur H. Einarsson, Oddur Ólafsson, Guðni Halldórsson og Ólafur Gunnarsson

LH Kappi hefur reynst hestamönnum og mótshöldurum vel en kominn var tími á uppfærslu á forritinu. HorseDay hefur verið í miklum vexti síðan það var sett á laggirnar 2020 og mun núna bæta aðgengi að upplýsingum og niðurstöðum móta.

Með þessu vonast samningsaðilar til þess að auka áhuga á hestaíþróttinni og bæta ásýnd hennar í heild. Mun forritið birta niðurstöðu allra móta sem skráð hafa verið inn í Sportfeng. Fyrir hvert tiltekið mót á notandi að geta skoðað dagskrá móts, ráslista, upplýsingar um keppendur (hesta og knapa) sem og niðurstöður (einkunnir) jafnóðum og þær hafa verið staðfestar.

Oddur Ólafsson framkvæmdastjóri HorseDay segir þetta ákaflega spennandi verkefni: ,,Við erum spenntir fyrir því að búa til framenda sem birtir og kemur þessum gögnum saman. Við erum að taka gögn úr WorldFeng og byggjum út frá þeim prófíla, tengjum þjálfunar gögn sem eru skráð í HorseDay og svo erum við að taka inn gögn frá SportFeng. Hafi eigandi og þjálfari hestsins áhuga geta þeir deilt með notendum allri þjálfunarsögu hestsins. Þetta mun bæta upplýsingaflæðið og gefa notandanum betri yfirsýn en hefur verið hingað til.”

Forritið mun gera notendum kleift að vakta mót og/eða hesta þannig að viðkomandi mun berast tilkynningar þegar nýjar niðurstöður berast. Grunnvirkni forritsins sem kemur í stað LH Kappa verður notendum að kostnaðarlausu enn sem komið er en með áskrift er hægt að auka virkni forritsins til muna. Stefnt er að að því að móta viðbót forritsins verði komin í fulla virkni í febrúar 2024. HorseDay smáforritið gerir notandanum jafnframt kleift að fylgjast með, geyma og fá aðgang að öllum upplýsingum varðandi þjálfun hestsins síns, járningu og sjúkrasögu á einum stað. Þá er hægt að fylgjast með öðrum hestum og knöpum og þeirra þjálfun.