Atburðir

Vel heppnuð IceHorse hátíð 2023

Ásta Björk Friðjónsdóttir
11
Apríl
2023
|
5
mín lestur
Helgina 30-2. apríl var IceHorse Festival haldin í Herning í Danmörku. Gríðarleg ásókn var á mótið og voru í heildina seldir um 3000 miðar.

Þétt dagskrá var keyrð frá morgni til kvölds alla dagana og mátti sjá heilmikið af frábærum hestum og knöpum. Í topp baráttunni voru bæði brottfluttir hestar í bland við hesta sem ræktaðir voru utan Íslands. Á meðal þeirra fyrrnefndu má m.a. nefna Arthúr frá Baldurshaga, Viðar frá Skör, Takt frá Vakurstöðum, Kveik frá Stangarlæk, Flaum frá Sólvangi og Fenri frá Feti. Af þeim síðarnefndu vöktu Evert fra Slippen, Hæmir fra Hyldbæk, Gustur vom Kronshof, Abel fra Tyrevoldsdal og Muni fra Bendstrup mikla athygli.

Mótið var haldið inni í MCH Arena sem er ein af fjölmörgum viðburðar höllum svæðinu. Í grunnin er höllin með steypt gólf en búinn var hreinlega til hringvöllur inni á steypunni með því að keyra inn efni í tonnavís. Skiptar skoðarnir voru á undirlaginu og sögðu sumir það mjög gott en öðrum fannst það þungt. Sitt hvoru megin við langhliðarnar voru stúkur sem rúmuðu 2500 manns og við aðra skammhliðina var feikna stórt svæði sem fullt var af sölu- og sýningarbásum. Þar á meðal var bás HorseDay en voru þau einn af styrktaraðilum mótsins. Starfsfólk HorseDay var viðstatt hátíðina eftir að hafa keyrt frá Þýskalandi þar sem þau voru í kynningarferð. Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri HorseDay skrifaði undir samning við IPZV um samstarf og hélt m.a. kynningu fyrir gesti mótsins um virkni appsins, ásamt því að hitta notendur. Meðal annarra áhugaverðra bása voru Öllöv skeifur, hestaflutningabílar og Equsana nammibar sem sló rækilega í gegn og margt fleira.

Peter Nagel, forseti IPZV og Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri HorseDay eftir undirritun samstarfssamnings

Á keppninni sjálfri var margt um að vera og höfðu gestir úr mörgu að velja. Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri HorseDay hélt fyrirlestur í sal fyrir áhugasama þar sem hann fór yfir sögu HorseDay og hvað appið hefur uppá að bjóða. Eftir fyrirlesturinn mynduðust skemmtilegar og áhugaverðar samræður þar sem áheyrendur spurðu spurninga og komu með tillögur að virkni. 

Það sem stóð uppúr á hátíðinni, fyrir utan frábæran hestakost, var umgjörð og utanumhald mótsins. Það var einstaklega gaman að sjá íþróttina hífða upp á annað plan með fyrirhöfn, skipulagi og fagmennsku. Dagskráin var þétt og vel skipulögð, aðstaðan engri lík og gríðarlega gaman var að sjá svona mikin fjölda fólks koma saman og fagna hestinum og íþróttinni okkar. Fagmennska að hálfu knapa og starfsfólks var áberandi og allt virtist vera upp á 10. Til þess að geta haldið mót af þessari stærðargráðu þarf mikið skipulag og t.d rann skráningarfrestur á mótið út þremur mánuðum fyrir mótið. Að vísu er fjármagn einnig grunnforsenda fyrir móti sem þessu og var IceHorse Festival ansi kostnaðarsamt mót fyrir bæði knapa og áhorfendur.

HorseDay básinn var vel staðsettur, hér er fólk að horfa á keppnina úr básnum okkar

Heilt yfir var IceHorse heilmikil skemmtun og upplifun. Fyrir okkur íslendingana opnaði hátíðin augu okkar fyrir hvað hægt er að gera sé viljinn fyrir hendi. Svæðið bauð upp á mikla nánd og samneyti við annað fólk sem myndaði einstakt andrúmsloft.

Af þeim fjölmörgu sem sóttu hátíðina komu margir til okkar á HorseDay básinn, bæði virkir notendur og aðrir áhugasamir. Það var mjög ánægjulegt og upplýsandi að ræða við gesti og var þessi ferð okkur ómetanleg í því að kynnast notendum og hestafólki yfir betur.

Ólafur H. Einarsson frá HorseDay, Peter Nagel forseti IPZV, Oddur Ólafsson framkvæmdastjóri HorseDay og Guðbjörn Jónsson framkvæmdastjóri IPZV.
Nils Christian Larsen og Oddur Ólafsson í Kronholt básnum
Útsýnið frá HorseDay básnum