Á nýliðnum vetri var margt um að vera í heimi hestaíþróttarinnar og fengu hestamenn svalað mikilli þörf fyrir hesta áhorfi eftir haustið. Líkt og tilkynnt var í byrjun vetrar skrifuðu eigendur Ingólfshvols hestamiðstöðvarinnar og HorseDay ehf. undir samning sín á milli þar sem HorseDay kemur til með að vera aðal styrktaraðili þeirrar starfsemi sem fer þar fram næstu þrjú árin og mun höllin hér með heita HorseDay höllin á Ingólfshvoli.
Haldnir voru fjölmargir viðburðir í HorseDay höllinni í vetur og má þar helst nefna Meistaradeild Ungmenna, Stóðhestaveisluna og Ræktun en voru viðburðir Meistaradeildar Líflands í hestaíþróttum þeir umfangsmestu. Meistaradeildin var alfarið haldin í HorseDay höllinni þetta árið, fyrir utan 150m og 250m skeið, en greinunum hefur hingað til verið dreift á milli svæða. Yfir alla viðburðina myndaðist virkilega skemmtileg stemning enda hefur Ingólfshvol upp á frábæra aðstöðu að bjóða, bæði fyrir áhorfendur en þá kannski sérstaklega fyrir keppendur eftir að reiðsvæðið var stytt til að hægt væri að hita upp inni.
Fulltrúi HorseDay mætti með myndavél á fimmgang Meistaradeildarinnar í vetur og höfum við tekið hér saman örlítið brot sem sýnir frá því hvernig kvöldin ganga fyrir sig og fangar andrúmsloftið frá ýmsum sjónarhornum.
Staðarhaldarar og HorseDay þakka ykkur fyrir vel heppnaðan og skemmtilegan vetur og við sjáum ykkur á komandi viðburðum!